Sjálfbærnistefna
Markmið sjálfbærnistefnunnar er að setja viðmið og markmið félagsins í sjálfbærnimálum, þ.e. umhverfismálum, félagslegum málum og stjórnarháttum.
Icewear gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki sem snýr að markmiðum félagsins að stuðla að aukinni útivist. Áherslur Icewear eru því að vera með mikið úrval, hágæðavörur og sanngjarnt verð sem tryggir aðgengi sem flestra að heilbrigðum lífsstíl.
Komandi tækni- og loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á allt rekstrarumhverfi Icewear og samfélagið allt. Þessar breytingar hafa áhrif á viðskiptavini, starfsfólk og framleiðslu Icewear og stefnir félagið þess vegna að því að starfa með ábyrgum og sjálfbærum hætti í rekstri sínum og hafa þannig áhrif til góðs á umhverfið og samfélagið.
Stefnuyfirlýsing
Það er stefna Icewear að vinna að heilindum í sjálfbærnimálum og hafa auk þess jákvæð áhrif á hagaðila með því að gæta að bæði beinum og óbeinum umhverfis- og félagslegum áhrifum í starfsemi sinni. Enn frekar lítur félagið til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hefur fjögur þeirra sérstaklega til hliðsjónar í markmiðum sínum um sjálfbærni.
Icewear hefur sett sér þau markmið að vera til fyrirmyndar í rekstri án þess þó að horfa eingöngu til fjárhagslegra markmiða sem tengjast hagkvæmni og arðsemi, heldur einnig UFS viðmiða (umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta).
Markmið Icewear er að auka jafnt og þétt árangur í sjálfbærnimálum með því að skilgreina þau markmið sem eiga helst við rekstur og framleiðslu á útivistarfatnaði. Icewear leggur auk þess áherslu á að auka þekkingu framleiðenda, birgja, starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagaðila um vegferðina að sjálfbærri framtíð.
Hlutverk og ábyrgð
Stjórn setur sjálfbærnistefnu og tryggir innleiðingu hennar.
Forstjóri og stjórn bera ábyrgð á innleiðingu stefnunnar og að eftir henni sé farið.
Stjórnendur bera ábyrgð á því að starfsmenn séu upplýstir um sjálfbærnistefnu, sjálfbærnimarkmið og að öll starfsemi Icewear endurspeglist að því.
Icewear gerir einnig kröfu á birgja og framleiðendur að þeir hugi að sjálfbærri starfsemi sinni.
Umhverfismál
Icewear leggur áherslu á að hafa sem minnst neikvæð umhverfisáhrif af starfsemi sinni og stuðlar að því að ávallt sé tekið mið af umhverfissjónarmiðum í tengslum við ákvarðanatöku í rekstri. Í þessu skyni er mikilvægt að Icewear þekki hver áhrif af rekstrinum geti verið á umhverfis- og loftlagsmál, þekkja hver áhrifin eru og hvernig megi draga úr þeim eins og kostur er. Auk þess er gerð krafa á framleiðendur um umhverfismat og að óháður aðili leggi mat á það.
Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig að uppfylla kröfur Parísarsáttmálans og horfir Icewear til þeirra skuldbindinga í tengslum við eigin rekstur. Stefnt er að því að minnka losun koltvísýrings og verða net zero árið 2030 og að losun hvers árs verði kolefnisjöfnuð.
Icewear mun flokka undirmarkmið félagsins í umhverfismálum í áfanga sem innleiddir verða jafnt og þétt til ársins 2030 til að ná markmiðum um net zero.
Félagslegir þættir
Icewear hefur félagsleg sjónarmið að leiðarljósi í allri sinni starfsemi og litið er til mannréttinda ofar öllu. Í því skyni skal virða Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna í öllu starfi Icewear. Gerð er krafa á bæði innri og ytri hagaðila Icewear að þeir virði mannréttindi og val á framleiðendum erlendis tekur mið af þessari stefnu.
Icewear líður ekki barnaþrælkun eða nauðungarvinnu og fylgist vel með aðbúnaði hjá framleiðendum sínum erlendis. Komi slík mál upp þá áskilur Icewear sér rétt til þess að slíta viðkomandi viðskiptasambandi.
Metnaðarfull mannauðsstefna Icewear styður við það markmið að rækta mannauðinn. Samskiptasáttmáli sem starfsmenn skrifuðu sjálfir, jafnlaunastefna og jafnréttisstefna skapa uppbyggilegt umhverfi, hlúir að starfsánægju og vellíðan, skapar öruggt starfsumhverfi og fjölskylduvænt fyrirtæki þar sem horft er til sveigjanleika og samræmingu vinnu og einkalífs.
Icewear leggur áherslu á fjölbreytileika og jafnrétti í öllum störfum og unnið er eftir jafnréttistefnu, stefnu um einelti, ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Jafnréttis- stefnu er ætlað að tryggja réttindi um jöfn kjör fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf, jafna stöðu og rétt starfsmanna innan félagsins óháð aldri, kyni, litarhætti, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynhneigð eða fötlun og tryggja að hver starfsmaður sé metinn á eigin forsendum.
Icewear hefur sögulega lagt áherslu á samfélagslega þátttöku í nærumhverfi sínu og mun halda þeim verkefnum áfram.
Stjórnarhættir
Stjórn og stjórnendur Icewear leggja áherslu á góða stjórnarhætti og þróa þá stöðugt og styrkja. Stjórnarhættir Icewear samræmast þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda. Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og vandaðri ákvarðanatöku sem stuðlar að traustum samskiptum milli innri og ytri hagaðila og minnka þannig líkur á hagsmunaárekstrum.
Icewear skuldbindur sig til að:
Fylgja bestu starfsvenjum, lögum og reglum um góða stjórnarhætti.
Ávallt sinna stjórnarháttum og innra skipulagi þannig að það stuðli að skilvirkri stjórnun og sjálfbærni í ákvarðanatöku.
Fylgja persónuverndarstefnu félagsins og tryggja að persónuupplýsingar séu verndaðar.
Vinna að því að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.
Heimsmarkmiðin
Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Þau eru samþætt, órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra. Heimsmarkmiðin fela einnig í sér fimm megin þemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf.
Endurskoðun stefnu
Sjálfbærnimál eru í eðli sínu málefni sem þróast með tímanum og verður stefnan yfirfarin árlega. Stefnan skal aðlöguð ef þörf er á til að gera sífellt betur og standast breyttar kröfur samfélagsins í sjálfbærnimálum.
Icewear styður við öll heimsmarkmiðin en leggur megin áherslu á eftirfarandi markmið þar sem þau tengjast sérstaklega starfsemi Icewear:
3 - Heilsa og vellíðan. Icewear leggur áherslu á heilsu og vellíðan sem er í samræmi við grunngildi Icewear um að útivist sé fyrir alla. Icewear styður við heimsmarkmið númer 3 með því að bjóða upp á mikið úrval af hágæða útivistarfatnaði á góðu verði til að sem flestum í samfélaginu sé aðgengilegt að stunda útivist. Þegar kemur að starfsfólki Icewear þá er lögð áhersla á heilsu og vellíðan en þá er horft til líkamlegrar, félagslegrar, persónulegar og andlegrar heilsu.
5 - Jafnrétti kynjanna. Icewear er með jafnlaunavottun og jafnréttisstefnu og hefur þannig jafnrétti kynjanna í forgrunni. Áfram verður unnið að því að hvetja samstarfsaðila, bæði innlenda og erlenda, til þess að leggja áherslu á jafnrétti.
9 - Nýsköpun og uppbygging. Með því að leggja áherslu á nýsköpun við bæði framleiðslu og hönnun útivistarfatnaðar styður Icewear við þetta heimsmarkmið.
13 - Aðgerðir í loftslagsmálum. Icewear einsetur sér að vinna að eigin markmiðum um loftlagsmál og styðja þannig við íslensk stjórnvöld að þau nái markmiðum Parísarsáttmálans fyrir árið 2030.
Samþykkt af stjórn Icewear desember 2022.